ÍSLAND sigrar Rúmeníu 4 - 3

Íslenska kvennalandsliðið hóf keppni á heimsmeistaramótinu í Rúmeníu með glæsibrag.  Liðið lagði gestgjafana í opnunarleik mótsins fyrir troðfullu húsi heimamanna í jöfnum og spennandi leik.  Það var Anna Sonja Ágústsdóttir sem skoraði fyrsta mark leiksins á 11. mínútu eftir sendingu frá Alissu Vilmundardóttur.  Rúmenar jöfnuðu aðeins tveimur mínútum síðar, en Ísland náði aftur forystunni öðrum tveimur mínútum síðar með marki frá Sigrúnu Agöthu Árnadóttur með aðstoð frá Steinunni Erlu Sigurgeirsdóttur.  Fleiri urðu mörkin ekki í lotunni og því staðan 2 - 1.
 
Í 2. lotu byrjuðu Rúmenarnir á því að jafna leikinn er Hrund Thorlacius breytti stöðunni í 3 - 2 nokkrum mínútum síðar eftir sendingu frá Jónínu Guðbjartsdóttur.  Hvort lið skoraði aðeins eitt mark í lotunni og því var allt í járnum og staðan 3 - 2 þegar leikmenn stigu inn á ísinn fyrir 3. og síðustu lotuna.
 
Hart var barist framan af en það var svo Hrund sem var aftur á ferðinni á 11. mínútu lotunnar og jók muninn í 4 - 2  eftir sendingu frá Birnu Baldursdóttur en aðeins tveimur mínútum síðar minnkuðu gestgjafarnir muninn í 4 - 3 og síðustu mínúturnar voru æsispennandi.  Sólveg Smáradóttir fékk 2ja mínútna brottvísun fyrir hindrun þegar aðeins um tvær og hálf mínúta voru eftir af leiknum.  Íslenska liðið varð því að halda forskotinu einum leikmanni færri síðustu mínúturnar og tókst það með mikilli baráttu og hörku. 
 
Hér er um frábæran árangur liðsins að ræða því þess má geta að rúmenska liðið lenti í 2. sæti í riðlinum í fyrra og bar þá m.a. sigurorð af okkar stúlkum með 5 mörkum gegn 2.  Það er varla til betri mælikvarði á framfarir en sigurleikir sem þessi.  Í lok leiksins var það svo Hrund Thorlacius sem var valin besti leikmaður íslenska liðsins.
 
Þetta var svo sannarlega ánægjuleg byrjun á mótinu fyrir íslenska liðið og vonandi veitir sigurinn því byr undir báða vængi.  Það er hins vegar mikilvægt að halda sér á jörðinni og taka einn leik í einu.  Á morgun mætir liðið Tyrklandi sem ætti skv öllu að vera auðveld bráð a.m.k. ef tekið er mið af síðustu viðureign liðanna, en það var einmitt í fyrra og þá vann Ísland með 12 mörkum gegn 1.   Það er þó engin ástæða til að vanmeta andstæðingana, öll stig skipta máli og stefnan er tekin á verðlaunapall - áfram Ísland.