Ísland lagði Serbíu að velli 5 - 3 í fjörugum leik.

Fögnuður.  Ljósm. Kristján Maack
Fögnuður. Ljósm. Kristján Maack

Leikurinn fór ekki vel af stað fyrir íslenska liðið en nokkur skrekkur var í liðinu á fyrstu mínútum og það var þó nokkuð kjaftshögg að fá á sig mark strax eftir tvær mínútur.  Það var svo gegn gangi leiksins að Serbarnir komust í 2 – 0 á 7. mínútu, en það kom eftir tapað uppkast í varnarsvæðinu og Serbarnir skoruðu með föstu skoti utan af velli.  Ekki góð byrjun og spjótin beindust að Dennis Hedström í markinu.

Liðið sýndi hins vegar gríðarlegan karakter og lét ekki mótlætið buga sig heldur óx liðinu ásmegin þegar líða tók á lotuna.  Birkir Árnason braut ísinn með góðu marki eftir glæsilegt spil og sendingar frá Ingvari Jónssyni og Emil Alengard.  Íslenska liðið nýtti sér þar liðsmun á meðan tveir Serbar tóku út kælingu.  Á 17. mínútu jafnaði svo Pétur Maack leikinn eftir sendingu frá Jóni Gísla og aftur var skorað í „power play“, þ.e. þegar liðið lék einum leikmanni fleiri.  Gott mark, stöngin inn.

Þarna hafði taflið snúist við, sjálfstraustið komið hjá okkar strákum og þeir serbnesku orðnir pirraðir, stóran þátt í því átti Jónas Breki Magnússon, sem virtist gera allt til að fara í taugarnar á þeim.

Í 2. lotu réð íslenska liðið lögum og lofum á ísnum og strákarnir börðust vel og lögðu allt í sölurnar.  Dennis var búinn að finna fjölina sína, eða svellbunkann í markinu og skellti í lás.  Tóninn gaf Emil Alengard sem um miðbik lotunnar geystist upp vinstri kantinn og aftur fyrir mark Serbana og skoraði með „wrap around-i“ og setti Serbana út af laginu.  Aðeins fjórum mínútum síðar jók Andri Már Mikaelsson forystuna eftir barning fyrir framan markið þar sem hann og Matthías Máni börðust vel í serbnesku krísunni.  Okkar menn báru á þessum tímapunkti höfuð og herðar yfir gestina og Jón Gísla bætti við 5.markinu í „power play“ þegar aðeins 8 sek voru eftir af 2. lotu með aðstoð frá Andra Mikaels.

Það var því vænleg 5 – 2 forysta sem íslenska liðið fór með inní búningsklefann eftir 2. lotu.  3. lota fór brösuglega af stað og brottvísunarvandamál háðu liðinu sem endaði með því að Serbar minnkuðu muninn í 3 – 5.  Fleiri urðu þó mörkin ekki og íslenska liðið sýndi gríðarlegan baráttu- og liðsanda á endasprettinum, fóru í raun létt með lánlausa Serba sem máttu sín lítils gegn íslenskri víkingasveit.  Serbarnir sóttu af öllum mætti á síðustu mínútunum og t.a.m. voru skotin 14 – 4 Serbum í vil í síðustu lotunni.  Strákarnir vörðust vel, vörnin fórnaði sér fyrir pekkina og Dennis var öryggið uppmálað á milli stanganna.

Þetta var sögulegur sigur því þetta var í fyrsta skiptið sem Ísland vinnur Serbíu í fullorðinsflokki en þegar liðin mættust í fyrsta skiptið fyrir 10 árum þá unnu Serbar 8 – 1 á þeirra heimavelli.  Þessi sigur undirstrikar stíganda íslenska landsliðsins á síðustu árum og þá framþróun sem orðið hefur á íshokkí á Íslandi síðasta áratuginn.

Á morgun er frídagur en á sunnudaginn er komið að þeim leik sem fyrirfram er gert ráð fyrir að verði hvað erfiðastur, en það er leikurinn gegn Eistum en þeir hafa líkt og Ísland unnið báða leiki sína í mótinu hingað til.  Strákarnir hafa hins vegar sýnt það að þeir eru til alls vísir og nú er komið að því að brjóta annað blað í hokkísögunni og leggja Eistana að velli á okkar heimavelli.  Áfram Ísland. Sss