Ísland gegn Íshundunum

Eftir u.þ.b. klukkustund hefst leikur hér í Sydney á milli íslenska karlalandsliðsins og Sydney Ice Dogs sem er lið í áströlsku deildinni.  Leikurinn er liður í undirbúningi landsliðsins fyrir komandi heimsmeistaramót sem hefst á mánudaginn.  Leikurinn fer fram í nýlegri og fallegri skautahöll í úthverfi Sydney, úti skín sólin og hitastigið er í kringum 25 gráður.  Heimamenn hafa auglýst leikinn vel og vandlega og reikna með húsfylli í kvöld.  Þessi frétt verður uppfærð reglulega meðan á leiknum stendur svo árisulir hokkíunnendur á norðuhveli jarðar geti fylgst með leiknum.   Þá er 1. lotu lokið og staðan er jöfn 0 - 0.  Okkar menn eru betri og hafa átt fjölmörg skot á markið en ekki tekist að skora.  Við fengum nokkur powerplay, vel gekk að setja upp og spilið var flott en skotin öll í belginn á markmanninum.  Við lentum einu sinni einum færri, Þórhallur Viðarsson fór útaf fyrir krosstékk en við stóðum það auðveldlega af okkur og vorum með pökkinn mest allan tímann.  Íshundarnir áttu tværi til þrjár hættulegar sóknir en meira var það ekki.  Leikmennirnir eru þó heldur þreyttir ennþá, ísinn er mjúkur og hlýtt í höllinni.  Við spyrjum að leikslokum.   Staðan eftir 2. lotu er 1 – 1.  Íshundarnir náðu forystunni eftir skelfileg varnarmistök en við jöfnuðum skömmu síðar með fallegu marki frá Stefáni Hrafnssyni eftir sendingu frá Daða Heimissyni.  Íshundarnir fengu eitt víti sem Dennis Hedström fór létt með en annað var ekki markvert í lotunni.  Dennis skipti svo við Ómar þegar leikurinn var hálfnaður.   Í 3. lotu byrjuðu Íshundarnir á því að skora og breyta stöðunni í 2 – 1.  Okkar menn bættu þá vel í og áttu m.a. stangarskot en allt kom fyrir ekki, pökkurinn ætlaði ekki inn.  Gestgjafarnir bættu svo við 3ja markinu þegar um 6 mín voru eftir af lotunni og vörðust vel sem eftir var.  Lokastaðan  3 – 1 og enganveginn í takt við leikinn.  Okkar menn voru miklu betri, að því er virtist, en einhvern veginn kom ekkert út úr því öllu saman.  Á endanum er það alltaf fjöldi markanna sem sker úr um sigurinn og þá skiptir engu hversu vel menn líta út á ísnum.  Þetta var sárt en lærdómsríkt.