Ísland - Ástralía 0 - 3

Leik Íslands og Ástralíu var að ljúka með sigri gestgjafanna, 3 – 0.  Það er frekar lítið um leikinn að segja, allar loturnar fóru 1 – 0 og í raun má segja að leikurinn hafi verið mjög jafn.  Það er þó engum blöðum um að fletta að Ástralarnir voru sterkari, þeir voru öruggari í sendingum og móttökum en í sprettum, fótavinnu og tæklingum var jafnræði með liðunum. 

Vörnin hjá gestgjöfunum er sú sterkasta hér á mótinu, þeir eru stórir og sterkir með mikla reynslu en í liðinu margir leikmenn sem spila eða hafa spilað í sterkum deildum utan Ástralíu.  Sóknarmennirnir okkar komust í raun mjög sjaldan í návígi við markið því þeim var ávallt stýrt út í hornin eða stoppaðir rétt innan við bláu. 
Leikurinn var leikur markvarðanna.  Dennis Hedström í marki íslenska liðins var valinn maður leiksins enda sýndi hann frábæra frammistöðu hér í kvöld og það sama má segja um ástralska markvörðinn sem hélt hreinu en það er ekki amalegt að ná „shut-out-i“ á heimsmeistaramóti.

Nú er þó ekkert annað í boði en að jafna sig með hraði og einbeita sér að næsta leik, því loka leikurinn er á morgun gegn Mexíkó.  Þann leik ætlum við að vinna en liðin hafa í mæst í tvígang í gegnum tíðina.  Í fyrra skiptið vann Ísland með einu marki en í seinni viðureignin endaði með jafntefli heima á Íslandi 2004.