Ísland - Armenía 5 - 4

Ísland vann Armeníu í gærkvöldi í æsispennandi og jöfnum leik þar sem úrslitin réðust ekki fyrr enn á síðustu mínútum leiksins.  Armenar mættu miklu ákveðnari til leiks en Íslendingar og náðu forystu strax á 8. mínútu leiksins með hálfgerðu klaufamarki. Pökkurinn hrökk af einum leikmanni íslenska liðsins og inn í markið fram hjá Birgi Erni Sveinssyni markverði sem annars átti mjög góðan leik.  Armenar voru ekki hættir og bættu við öðru marki á 17. mínútu og juku forskot sitt í 2 – 0. Þannig var staðan eftir 1. lotu og ekki laust við að taugarnar væru farnar að titra í áhorfendum sem fjölmennt höfðu í höllina.  Strákarnir voru alls ekki að spila sinn besta leik, létu pökkinn ekki ganga og héngu of lengi á pekkinum.
 

Það var ekki að sjá mikla breytingu á leik liðsins í upphafi 2. lotu en þegar um 7 mínútur voru liðnar af lotunni fengu Armenar tvo brottrekstra með stuttu millibili sem setti íslenska liðið í þá kjörstöðu að hafa 5 leikmenn gegn 3 í tæpar tvær mínútur.  Tækifærið var nýtt til fullnustu og Ingvar Þór Jónsson skoraði fallegt mark með föstu skoti rétt innan við bláu línuna upp í skeytin eftir sendingar frá Rúnari Rúnarssyni og Emil Alengard.  Mínútu síðar skoraði svo Guðmundur Ingólfsson með góðu skoti nánast frá sama stað og Ingvar en að þessu sinni var skotið alveg við ísinn.  Sendinguna á Guðmund átti Emil Alengard. Nú var staðan orðin 2 - 2 og ekki urðu mörkin fleiri í lotunni og því allt í járnum þegar 3. og síðasta lota hófst.
 
Íslenska liðið var farið að spila betur og allt leit út fyrir að það væri komið á beinu brautina.  Armenarnir voru þó ekki af baki dottnir og strax í upphafi 3. lotu juku þeir muninn í 3 – 2.  Ingvar Þór Jónsson var fljótur að bregðast við og jafnaði leikinn aftur með þrumuskoti frá bláu aðeins um 20 sekúndum síðar eftir sendingar frá Gauta Þormóðssyni og Emil Alengard.  Um miðbik lotunnar skoraði svo Rúnar Rúnarsson 4. mark Íslands eftir sendingar frá Gauta og Alengard.  Rúmri mínútu síðar jókst forskotið enn þegar Jónas Breki
Magnússon bætti við 5. markinu eftir sendingar frá Brynjari Þórðarsyni og Daða Erni Heimissyni.  Þarna var staðan orðin 5 - 3 en engu síður voru Armenar ógnandi og ekkert öruggt í stöðunni.  Armenum tókst svo að minnka muninn í 5 - 4 þegar rétt um mínúta var eftir af leiknum en strákarnir börðust vel í lokin, héldu út til enda og uppskáru góðan sigur gegn óvenju sterku liði Armena.  Tölulegar upplýsingar úr leiknum berast innan tíðar.        Myndin er af Ingvari Þór Jónssyni fyrirliða sem skoraði tvö mikilvæg mörk í leiknum.