Ísland 9-0 gegn Tyrklandi

Íslenska kvennalandsliðið sýndi mátt sinn og megin gegn Tyrkneska liðinu í dag og vann með níu marka mun 9-0, á Heimsmeistaramóti í IV deild sem haldið er í Rúmeníu þessa dagana. Höfðu okkar konur yfirhöndina allan tímann þó svo að þær tyrknesku verðust vel en stundum frekar ódrengilega.
Leikurinn gekk þannig að skoruð voru 3 mörk í fyrsta leikhluta, 4 í öðrum og 2 í þeim þriðja. Markaskorarar íslenska liðsins voru Flosrún Jóhannesdóttir 1, Hanna Rut Heimisdóttir 4 mörk, Sólveig Smáradóttir 1 mark, Sigrún Agata Árnadóttir 1 mark, Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir 1 mark og Birna Baldursdóttir 1 mark. Stoðsendingar áttu Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir, Birna Baldursdóttir, Sigrún Agata Árnadóttir, Flosrún Jóhannesdóttir, Sigrún Sigmundsdóttir, Sólveig Smáradóttir, Hrund Thorlacius, Vala Stefánsdóttir, Hanna Rut Heimisdóttir og Anna Sonja Ágústsdóttir. Hanna Rut fyrirliði liðsins var valin kona leiksins. Ísland átti 66 skot á mark andstæðinganna sem áttu einungis 4 skot á okkar mark og má segja að markmaður tyrkneska liðsins hafi átt góðan leik.
Á morgun er frídagur hjá liðunum en næsti leikur okkar kvenna er við Suður Afríku á miðvikudag og má búast við mjög spennandi leik.