Ísland 3 Mexíkó 8

Síðasti leikur íslenska liðsins hér í Búkarest gegn Mexíkó fór því miður ekki á þann veg er við hefðum kosið.  Eftir góða byrjun þar sem íslenska liðið komst í 2 – 0 var sem liðið hefði komist á endastöð.  Leikurinn snérist algerlega við og liðið sá ekki til sólar sem eftir lifði leiks.  Mexíkó jafnaði fyrir lok fyrstu lotu með tveimur “power play” mörkum og komst yfir í 2. lotu með 3ja markinu þar sem íslenska liðið lék einum leikmanni færra.
 
Svo virtist vera sem drengirnir hefðu ekki þrek og úthald til að klára mótið enda mjög erfiðir leikir að baki sem tekið hafa sinn toll.  Leikurinn endaði 8 – 3 og mörkin skoruðu Gauti Þormóðsson, Emil Alengard og Guðmundur Guðmundsson.
 
Þetta tap gerði það að verkum að við urðum að treysta á að Ungverjar legðu Rúmena í síðasta leik, sem þeir blessunarlega gerðu.  Ungverjar urðu þar með “heimsmeistarar”, Litháen í öðru sæti, Króatar í því þriðja, Mexíkó í fjórða, Ísland í fimmta og gestjafarnir þurfa að bíta í það súra epli að falla niður í þriðju deild.  Að móti loknu voru bestu leikmenn hvers liðs heiðraðir sérstaklega og í íslenska liðinu kom sá heiður í hlut Gauta Þormóðssonar, enda sýndi hann á tíðum ótrúlega takta í sendingum og markaskorun en hann var eftir 4 leiki þriðji stigahæsti leikmaður mótsins, en þegar þetta er skrifað liggja ekki fyrir tölulegar upplýsingar eftir síðustu leikina.
 
Þó við hefðum kosið vænlegri úrslit í lokaleiknum þá getum við engu að síður verið ánægð með árangurinn, liðið sýndi góða takta og velgdi gamalgrónum hokkíþjóðum undir uggum að ógleymdum stórsigri á Rúmenum.
 
Liðið leggur snemma af stað í fyrramálið og ræs er kl. 02:45 að íslenskum tíma en skv flugáætlun er lendingartími 15:45 í Keflavík.  Áfram Ísland!