Íshokkímenn ársins 2007

Stjórn ÍHÍ hefur valið íshokkímenn ársins árið 2007. Í kvennaflokki hlaut Jónína Guðbjartsdóttir titilinn en í karlaflokki Sergei Zak.

Jónína Guðbjartsdóttir er 26 ára Blöndósingur sem hóf að æfa íshokkí aldamótaárið 2000 þegar skautahöllin á Akureyri var tekin í notkun. Hún hefur því leikið með kvennaliði Skautafélags Akureyrar frá því að það var stofanð. Segja má að Jónína hafi spilað allar stöður á vellinum þvi að fyrstu tvö árin lék hún í marki. Haustið 2002 hætti hún í marki og hefur spilað bæði sem varnar og sóknarmaður síðan ásamt því að vera núverandi fyrirliði SA. Jónína hefur spilað alla leiki sem spilaðir hafa verið á íslandsmóti kvenna í íshokkí og unnið til sex Íslands-meistaratitla með liði sínu SA. Jónína hefur leikið alla landsleiki sem íslenskt kvennalandslið hefur spilað í alþjóðlegum mótum og var aðstoðarfyrirliði þegar liðið tók þátt í heimsmeitaramóti kvenna í Rúmeníu.

Sergei Zak hóf að æfa íshokkí fjögurra ára gamall í Sankti-Péturborg. Hann lék með unglingaliði SKA í Sankti-Pétursborg allt þar til hann varð 16 ára og var á þeim tíma tíma boðið í æfingabúðir unglingalandsliðs Rússa. Sautján ára að aldri var honum boðið að leika í A-deild unglinga í Kanada þar sem hann var í tvö ár. Sergei lék síðan með elítu liði Samara í Rússlandi en þaðan hélt hann til Þýskalands og Sviþjóðar að leika íshokkí. Á þessum tíma lauk Sergei kennara og íshókkíþjálfunar gráðu frá Íþróttaháskólanum í Sankti-Pétursborg. Árið 1995 flutti Sergei til Ísrael þar sem hann lék í sjö ár, m.a. með landsliði Ísraela í heimsmeistarakeppnum og var hann valinn leikmaður keppninnar oftar en einusinni. Hingað kom Sergei árið 2000 til að keppa í heimsmeistarakeppni með liði sínu Ísrael og hefur ekki snúið til baka síðan. Hann hefur þjálfað alla flokka Bjarnarins í íshokkí ásamt því að þjálfa yngri landslið Íslands og má því segja að síðustu árin hafi Sergei tekið mikinn þátt í uppbyggingu íshokkís á Íslandi. Sergei Zak varð íslenskur ríkisborgari árið 2006.

HH