Íshokkífólk ársins

Stjórn Íshokkísamband Íslands kom saman þ. 16. desember og valdi íshokkífólk ársins í karla- og kvennaflokki. Þeir eru:

Flosrún Vaka Jóhannesdóttir er íshokkíkona ársins  2008. Flosrún hefur verið á skautum frá sex ára aldri, þar af  æft íshokkí undanfarin 10 ár.
Flosrún æfði og lék í Danmörku síðastliðin tvö ár með liðinu Herlev Hornets. Með Flosrúnu innanborðs vann liðið danska meistaratitilinn bæði árin og var Flosrún með stigahæstu leikmönnum bæði innan liðsins og í deildinni.
Flosrún hefur einnig keppt með landsliði Íslands frá stofnun þess og undanfarin tvö ár verið aðstoðarfyrirliði. Skemmst er að minnast þess góða árangurs sem kvennaliðið náði í heimsmeistarkeppni Alþjóða íshokkísambandsins sem fram fór í mars. Liðið vann alla sína leiki og náði að vinna  sig upp um deild. Flosrún sýndi sínar bestu hliðar á mótinu og var m.a. valinn besti leikmaður liðsins í einum af leikjunum.
Auk afreka í íshokkí hefur Flosrún undanfarin ár spilað streethokkí á sumrin og m.a. unnið gull  með liði sínu Gentofte Rattle Snake á Evrópumeistaramótinu ásamt því að verða Danmerkurmeistari.
Flosrún flutti heim aftur í sumar og leikur nú með Skautafélaginu Birninum og er jafnframt fyrirliði liðsins.
 
Jón Benedikt Gíslason íshokkímaður ársins er Akureyringur og leikur fyrir hönd  Skautafélags Akureyrar  ásamt því að vera fyrirliði liðsins.  Jón hefur spilað íshokkí frá sjö ára aldri en fimmtán ára gamall flutti Jón til Kanada til að spila íshokkí fyrir unglingalið Holland Rockets í Manitoba-fylki í Kanada. Jón hóf ungur að spila með landsliðum Íslands og hefur spilað fjölmarga landsleiki bæði í unglinga- og fullorðins landsliðum Íslands. Jón hefur einnig spilað með félagsliðum í Finlandi, Danmörku og Kína. Með dvöl sinni í Kína varð Jón fyrsti atvinnumaður Íslendinga í íshokkí.  Á síðasta keppnistímabili varð Jón Íslandsmeistari með Skautafélagi Akureyrar og var aðstoðarfyrirliði í landsliði Íslands sem keppti á heimsmeistaramóti í Newcastle í Ástralíu.  Jón hefur ásamt því að spila íshokkí komið að þjálfun barna og unglinga í íþróttinni.

Við óskum þeim að sjálfsögðu báðum innilega til hamingju.

HH