In memoriam - Jim Johannson

Sú sorgar frétt barst um nýliðna helgi að Jim Johannson landsliðseinvaldur hjá USA Hockey hefði fallið frá. Þetta er mikið áfall fyrir íshokkíheiminn því þessi rauðhærði öðlingur sem var af þriðju kynslóð Íslendinga hefur sett mark sitt á þessa íþrótt í langan tíma með einstökum hætti.

Jim var fæddur 10 mars 1964 í Rochester, í Minnesotafylki. Afi hans í föðurætt var Jóhan Tryggvi Jóhannsson, Edmonton, Alberta, fæddur á Akureyri 25 des 1886 og faðir Jóhans Tryggva var Gunnlaugur Friman Jóhansson, úr Skíðadal fæddur 22. maí 1862 og kona hans Elín Jónsdóttir. Út frá Gunnlaugi er hægt að rekja mörg nöfn af frændfólki Jimmy.

JJ eins og hann var jafnan kallaður hóf störf hjá USA hockey árið 2000, sem framkvæmdastjóri erlendra viðburða. Það var svo árið 2007 sem hann var gerður að landsliðseinvaldi. Í Ameríku er hefð fyrir því að einvaldurinn velur alla leikmenn og svo þjálfara teymið á eftir sem fer með lið Bandaríkjanna á næsta alþjóðlega mót.

JJ naut einstakrar virðingar fyrir störf sín hvort sem var innanlands eða á alþjóðavettvangi. Hann var mjög alþýðlegur og ljúfur og var talin hafa sérstaklega gott auga fyrir nýjum leikmönnum. Sagt var að ef að JJ sýndi leikmönnum áhuga þá fylgdist allur NHL heimurinn með.

Undir hans stjórn unnu Bandarísk íshokkí lið, karla, kvenna og undir 20 ára,  64 medalíur í hæsta styrkleikaflokki, 34 gull, 19 silfur og 11 brons verðlaun. JJ er einnig einn aðal höfundurinn af því sem þekkt er í hokkíheiminum sem „American Development Model“ Íshokkí kennslu aðferðafræði sem víða um lönd hefur verið tekin upp að hluta eða í heild.

Jim Johannson spilaði háskóla hokkí fyrir University of Wisconsin frá 1982-86 og átti sinn þátt í því að lið skólans the Badgers unnu NCAA titilinn þegar hann var busi í liðinu. Hann var valin af Hartford Whalers í sjöundu umferð (nr. 130 af heildinni) í NHL Draft úrdrætti árið 1982 og spilaði 374 leiki sem atvinnumaður í the International Hockey League á árunum 1987-94. Á þessum tíma eru skráðir á hann 279 punktar þar af 119 mörk.

Hann lék tvisvar fyrir landslið Bandaríkjanna á Vetrarólympíuleikum 1988 og 1992 auk þess lék hann á sama ári í heimsmeistarakeppni með Bandaríska liðinu.

Við Íslendingar áttum einstakan vin og velgerðarmann í JJ og oft mátti sjá fingraför hans á málefnum þar sem aðstoð þurfti frá öðrum þjóðum til þess að fá umsóknir um mótahald og margt fleira í gegnum þingheim Alþjóða íshokkísambandsins. Hann var mjög meðvitaður um íslenskan uppruna sinn og var stoltur af honum.
Hann kom hér til lands sumarið 2014 og hafði sérlega gaman af því. Hann var alveg ákveðin í því að nú yrðu ferðirnar fleiri. Hann ætti eftir að sjá íslenskan hokkíleik og spila miðnæturgolf. Stuttu síðar eignuðust JJ og kona hans Abby svo dóttir sem fékk nafnið Ellie þannig að fleiri íslandsheimsóknir voru settar á bið.


Að lokum langar mig fyrir hönd allra íshokkíhreyfingarinnar á Íslandi að þakka þessum góða dreng fyrir kynnin og stuðninginn við uppbyggingu á þessari frábæru íþrótt hér á landi. Fingraför hans munu hafa áhrif á bæði alþjóðlegt og íslenskt íshokkí um langan tíma.

Deyr fé
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.

Dýpstu samúðarkveðjur til allra vina okkar hjá USA hockey, eftirlifandi eiginkonu Abby og dótturinnar Ellie.

Viðar Garðarsson