Húnar - SR umfjöllun

Hart barist í Egilshöllinni í gærkvöld                                                                           Mynd: Sigrún Björk Reynisdóttir

Húnar og Skautafélag Reykjavíkur léku á íslandsmótinu í íshokkí í gærkvöld. Leiknum lauk með sigri SR-inga sem gerðu fimm mörk gegn þremur mörkum Húna.
Þetta er þriðji leikur liðanna í vetur  en í hinum tveimur fyrri hafa SR-ingar unnið nokkuð örugglega og raunin varð sú líka að þessu sinni þó Húnar hafi látið þá hafa öllu meira fyrir hlutunum en áður.

Húnar hófu  leikinn betur og aðeins voru liðnar 18 sekúndur af leiknum þegar Matthías S. Sigurðsson kom Húnum yfir, en það var SR-ingingurinn fyrrverandi Arild Kári Sigfússon sem átti stoðsendinguna.  Adam var þó ekki lengi í Paradís og Daniel Kolar jafnaði fyrir þá metin þegar réttar rúmar  sjö mínútur voru liðnar af lotunni. SR-ingar komust síðan yfir með marki frá Robbie Sigurðssyni og staðan því 1 – 2 að lokinni  fyrstu lotu.

Í annarri lotunni áttu Húnar áfram í vök að verjast en SR-ingar bættu við tveimur mörkum. Egill Þorðmóðsson átti fyrra markið en í þvi síðara átti fyrrnefndur Egill stoðsendingu í marki Gauta bróðir síns. Staðan þvi 1 – 4 eftir aðra lotu og SR-ingar komnir í þægilega stöðu. 

Í þriðju lotu jafnaðist leikurinn nokkuð en Egill Þormóðsson bætti fljótlega við sínu öðru marki í leiknum og jafnframt fimmta marki SR-inga. Húnarnir gáfust þó ekki upp og einum færri náði Falur Birkir Guðnason að minnka fyrir þá muninn. Það var síðan fyrrnefndur Arild Kári sem átti lokaorð leiksins með marki þegar tæpar tvær mínútur lifðu leiks.

Mörk/stoðsendingar Húnar:

Arild Kári Sigfússon 1/1
Matthías S. Sigurðsson 1/0
Falur Birkir Guðnason 1/0
Bergur Árni Einarsson 0/1

Refsingar Húnar: 32 mínútur

Mörk/stoðsendingar  SR:

Egill Þormóðsson 2/1
Daniel Kolar 1/0
Robbie Sigurðsson 1/0
Gauti Þormóðsson 1/0
Kristján Gunnlaugsson 0/1

Refsingar SR: 8 mínútur.