Húnar - SR Fálkar umfjöllun

Úr myndasafni
Úr myndasafni

Húnar báru í kvöld sigurorð af SR Fálkum með þremur mörkum gegn einu á íslandsmóti karla í íshokkí en leikurinn fór fram í Egilshöll. Liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn en með sigrinum lyftu Húnar sér upp í þriðja sæti deildarinnar með tólf stig en næstir fyrir ofan þá er Víkingar með sextán stig.

Það var unglingalandsliðsmaðurinn Elvar Snær Ólafsson sem kom Húnum yfir á sextándu mínútu fyrstu lotu en þetta er annað mark Elvars í vetur . Kári Guðlaugsson náði hinsvegar að jafna leikinn þegar önnur lota var u.þ.b. hálfnuð þrátt fyrir að Húnar hefðu verið öllu sókndjarfari. Fimm mínútum síðar kom Bóas Gunnarsson Húnum yfir og með 2 – 1 forystu Húna, fóru liðin inn í leikhlé. Fljótlega í þriðju lotu misstu Húnar mann af ísnum og SR Fálkar reyndu að nýta sér það. Það gekk ekki upp og ess í stað komst Edmunds Induss einn innfyrir á móti markmanni SR Fálka og skoraði en það var jafnframt síðasta markið sem gert var í leiknum.

Mörk/stoðsendingar Húnar:

Bóas Gunnarsson 1/1
Elvar Freyr Ólafsson 1/0
Edmunds Induss 1/0
Thomas Nielsen 0/1

Refsingar Húnar: 10 mínútur.

Mark SR Fálkar:

Kári Guðlaugsson.

Refsingar SR Fálkar: 8 mínútur

Hafsteinn Snær Þorsteinsson

HH