Hokkístelpur í Helsinki

U18 hokkístelpur frá Íslandi
U18 hokkístelpur frá Íslandi

Nú hafa 14 íslenskar hokkístelpur á aldrinum 13-18 ára lokið keppni á alþjóðlegu móti „Legendary Selects“ sem fram fór í Helsinki dagana 25.-29.júlí.

Þessi kvennahokkílið eru svokölluð Selects lið sem eru skipuð leikmönnum sem koma frá ólíkum hokkíliðum víðsvegar að en stelpurnar eru valdar til þátttöku á mótinu. Þátttökuliðin voru Ísland, Selects Norður Ameríka, sem er blandað lið skipað leikmönnum frá Bandaríkjunum og Kanada, Selects Finnland/Rússland og að lokum Selects Evrópa sem er blandað lið frá Evrópu en að mestu skipað leikmönnum frá Svíþjóð.

Íslenska liðið var að mestu skipað leikmönnum frá Skautafélagi Akureyrar en einnig leikmönnum frá SR og Birninum, tveir íslenskir leikmenn komu erlendis frá, frá Noregi og Kanada. Spilaðar voru tvær umferðir og árangur íslenska liðsins koma vægast sagt á óvart. Íslensku stelpurnar gerðu sér lítið fyrir og unnu öll liðin í fyrstu umferð en leikirnir voru allir mjög jafnir og skemmtilegir og oft mjög mjótt á munum. Í fjórða leik liðsins töpuðu þær á móti blönduðu liði Norður-Ameríku og þar sem Finnland hafði einungis tapað einum leik á mótinu var síðasti leikur mótsins hreinn úrslitaleikur um gullið.

Leikar fóru svo að þær finnsku rétt höfðu okkar konur með einu marki, en leikurinn fór 2-1 fyrir Finnlandi. Leikurinn hefði ekki getað verið jafnari og skemmtilegri og fer því í reynslubanka þessara framtíðar landsliðskvenna.

Kolbrún Garðarsdóttir frá Skautafélagi Akureyrar var valinn besti leikmaður mótsins.