Hokkípáskahelgi og fleira

Þótt langt sé liðið á hokkí tímabilið er það langt frá því að vera búið. Á morgun laugardag verða tveir leikir og fara þeir báðir fram á Akureyri.

Fyrri leikurinn hefst klukkan 17.30 en þá leika lið SA-eldri og Björninn í meistaraflokki kvenna. Bjarnarstúlkur hafa fyrir nokkur tryggt sér heimaleikjaréttinn í úrslitum og því leikurinn kanski þýðingarminni en oft áður. Leikurinn er hinsvegar góð upphitun því næstu dagana munu stelpurnar leika fjölmarga leiki. Eins og áður segir hefst þetta með leiknum á morgun en í beinu framhaldi af því kemur NIAC-mótið. Því miður hætti landslið Rúmeníu við að mæta á mótið á síðustu stundu en enska liðið Slough Phantoms mætir hinsvegar til leiks auk þess sem skipt verður upp í tvö íslensk landslið. Að NIAC-mótinu loknu renna stelpurnar sér síðan í úrslitakeppni þar sem það lið sem fyrr verður til að tryggja sér tvo sigra verður Íslandsmeistari. Það er því nóg að gera hjá stelpunum næstu tvær vikur eða svo.

Að leik stelpnanna loknum á morgun leika sömu lið í 2. flokki karla. Bjarnarstrákar hafa tryggt sér titilinn í flokknum og mæta því á staðinn og taka við verðlaunum sínum.

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson

HH