Hokkímenn á faraldsfæti

Íslenskir íshokkímenn gera víðreist næstu daga og vikur og er ferðinni heitið bæði austur og vestur frá Íslandi. Bæði er um að ræða að menn fari í svokallaða úrtöku (try out) en einnig hafa menn verið að leita fyrir sér með skólavist í erlendum háskólum. Þá að sjálfsögðu í skólum þar sem hokkí er í hávegum haft þannig að nám og íþróttin fari vel saman. Fyrstan ber að nefna Egil Þormóðsson sem nú þegar er kominn í tveggja vikna úrtöku hjá Linköping Hockey Club en það er sami klúbburinn og Emil Alengard spilaði með á síðasta tímabili. Um næstu helgi munu þær Hrund Thorlacius og Margrét Vilhjálmsdóttir síðan halda til Viramaki og dvelja þar í vikutíma í svokölluðum Hockey Development Camp. Í framhaldi af því heldur Hrund síðan til Svíþjóðar ásamt Önnu Sonju Ágústsdóttir en þær munu spila með sænska liðinu Malmö Redhawks á komandi keppnistímabili. Á svipuðum tíma halda tveir aðrir unglingalandsliðsmenn í úrtöku en það eru þeir Orri Blöndal og Andri Már Mikaelsson. Þeir ætla að tylla sér í tíu daga í Malmö og reyna fyrir sér hjá liði sem heitir Pantern. Í lok ágúst heldur Gauti Þormóðsson í víking til Kanada, nánar tiltekið í háskóla sem heitir Ryerson en þar mun hann nema og spila hokkí. Ekki er ólíkegt að fleiri hokkímenn eigi eftir að feta í fótspor Gauta og sameina nám og hokkí. Annar SR-ingur gæti verið á leið vestur um haf en það er Þorsteinn Björnsson en eins og sumir hokkíáhugamenn vita þá hóf Þorsteinn að leika hokkí þar á meðan foreldrar hans voru í námi. Liðið sem Þorsteinn hefur verið í sambandi við heitir Kanata Stallions en liðið er staðsett í Ottawa og spilar í svokallaðri CHJL deild. Einhver vandræði hafa verið með leikmannaleyfi vegna ferðar Þorsteins en það ætti allt að koma í ljós á næstu dögum.

HH