Hokkímaður ársins

Jón Benedikt Gíslason er fæddur árið 1983, er fyrirliði SA-Víkinga og fór fyrir sínu liði þegar það tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í spennandi úrslitakeppni gegn Birninum síðasta vor.  Jón hefur einnig verið einn af lykilleikmönnum íslenska karlalandsliðsins síðasta áratuginn og ekki síst á heimsmeistaramótinu í vor þegar liðið tryggði sér bronsverðlaun í 2.deild sem er besti árangur Íslands frá upphafi.  Jón hefur spilað hokkí frá unga aldri og hefur æft og spilað í Kanada, Finnlandi og Kína þar sem hann var atvinnumaður. 
Jón hefur alla tíð lagt hart að sér við æfingar og þeir eru ófáir morgnarnir sem hann hefur mættur einn á ísinn á aukaæfingar.  Jón leggur jafnframt sitt af mörkum til íþróttarinnar og uppbyggingarinnar, en hann þjálfar yngri flokka auk þess sem hann situr í stjórn íshokkídeildar Skautafélags Akureyrar.
Íshokkísamband Íslands óskar Jóni Benedikt innilega til hamingju með titilinn.

HH