Hokkíhelgin


Frá leik SR og Víkinga á síðasta tímabili.                                                                        Mynd: Sigrún Björk Reynisdóttir

Hokkíhelgin að þessu sinni fer öll fram á föstudagskvöldi en á dagskrá eru tveir leikir, þ.e. einn í kvennaflokki og annar í karlaflokki.

Klukkan 19.30 hefst  í Egilshöllinni leikur Bjarnarins og Ynja í meistaraflokki kvenna. Það  liðið sem hefur með sér þrjú stig úr leiknum mun ná öðru sætinu  í deildarkeppninni og því enginn vafi að hart verður barist. Bjarnarstúlkur hafa verið að þétta raðir sínar smátt og smátt en þær misstu tvo áberandi leikmenn frá síðasta tímabili, þ.e. þær Karitas Sif Halldórsdóttir markvörð og Hönnu Rut Heimisdóttir. Ynjur munu mæta með vel skipað lið til leiks, Bergþóra H. Bergþórsdóttir hefur þó verið meidd töluvert lengi og er það skarð fyrir skildi.

Síðari leikur kvöldins hefst klukkan 20.15 og fer fram í Laugardalnum. Þar leiða saman hesta síðan Skautafélag Reykjavíkur og Jötnar. SR-ingar misstu töluvert af mannskap frá síðasta tímabili og því er töluvert uppbyggingarstarf framundan og aldrei að vita nema að fyrrum leikmenn taki fram skautana á ný. Liðið hefur ekki enn náð að landa sigri en hefur tvö stig eftir tvö jafntefli. Eftir því sem best er vitað mæta Jötnar með sterkt lið til Reykjavíkur þannig að menn mega eiga von á hörkuleik í Laugardalnum.

Þeir sem eiga ekki heimangegnt á leikina ættu að geta fylgst með á tölfræðisíðum kvenna- og karlaflokks.

HH