Hokkíhelgin

Frá leik liðanna fyrr á tímabilinu
Frá leik liðanna fyrr á tímabilinu

Hokkíhelgin að þessu sinni skartar tveimur spennandi leikjum sem báðir fara fram norðan heiða.

Fyrri leikurinn er leikur Víkinga og Bjarnarins í meistaraflokki karla en hann hefst klukkan 16.30. Liðin berjast nú um heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni sem hefst fimmtudaginn 13. mars næstkomandi. Staðan í deildinni er sú að Björninn hefur leikið fjórtán leiki og er með eins stigs forskot á Víkinga sem eiga leik til góða.  Þeir tveir leikir sem Björninn á eftir að leika í deildarkeppninni eru annarsvegar fyrrnefndur leikur gegn Víkingum á morgun og síðan mætast liðin aftur í Egilshöllinni um næstu helgi. Víkingar eiga fyrrnefnda tvo leiki eftir við Björninn en einnig leik gegn SR sem er síðasti leikur deildarkeppninnar á þessu tímabili. Bæði lið vilja því ólm ná í stigin þrjú sem í boði eru á morgun. Hjá Víkingum er Gunnar Darri Sigurðsson frá vegna meiðsla en hjá Birninum er Trausti Bergmann frá vegna meiðsla en Ólafur Hrafn Björnsson, Úlfar Jón Andrésson og Matthías S. Sigurðsson eiga ekki heimangengt. 

Spennan er ekki minni í meistaraflokki kvenna en þar mætast Skautafélag Akureyrar og Björninn strax að karlaleiknum loknum. Þetta er síðasti leikur tímabilsins í kvennaflokki á tímabilinu og í leiknum ræðst hvort liðið hampar deildarbikarnum.  Bjarnarkonur standa ágætlega að vígi fyrir leikinn en þær hafa þriggja stiga forskot á norðankonur en einnig er markahlutfallið þeim hagstætt um fimmtán mörk. SA-konur þurfa því að vinna upp þann mun en þar sem um innbyrðisleik er að ræða vegur hvert mark tvöfalt. Liðin munu bæði stilla upp sínum sterkustu liðum og enginn vafi á að baráttan verður hörð. Úrslitakeppni kvenna hefst síðan strax nk. fimmtudag enda styttist í HM-mót kvenna sem fram fer í Reykjavík í mars.

Þeir sem ekki eiga heimangengt á leikina geta horft á þá á SA TV og fylgst með textalýsingu á tölfræðisíðum okkar.

Mynd: Ásgrímur Ágústsson

HH