Hokkíhelgin

Frá leik SA og SR sl. þriðjudag
Frá leik SA og SR sl. þriðjudag

Segja má að þessa hokkíhelgina verði hringnum lokað hvað meistaraflokk karla áhrærir. Þ.e. að loknum leikjum helgarinnar hafa öll liðin í deildinni mæst einusinni. Um helgina hefst einnig keppni í þriðja flokki en þetta tímabilið verður flokkurinn spilaður í stökum leikjum en ekki helgarmótum einsog undanfarin ár. 

Fyrsti leikur helgarinnar er leikur Skautafélags Reykjavíkur og Bjarnarins í meistaraflokki karla. Leikurinn fer fram í Laugardalnum í kvöld og hefst klukkan 19.45. Bæði lið töpuðu sínum síðasta leik. Heimamenn í SR töpuðu sínum  síðasta leik gegn SA fyrir norðan sl. þriðjudag en liðið virðist þó vera smátt og smátt að stíga upp eftir mögur ár. Bjarnarmenn á hinn bóginn byrjuðu vel gegn norðanmönnum en fengu síðan nokkurn skell gegn Esju sl. þriðjudag. Stigin þrjú sem í boði eru skipta því töluverðu máli um hvort liðið heldur sig nálægt toppnum.

Síðari leikurinn í meistaraflokki karla er leikur UMFK Esju og Skautafélags Akureyrar og fer hann einnig fram í Laugardalnum á morgun, laugardag, og hefst klukkan 18.45. Einsog kom fram í frétt hérna hjá okkur í gær hefur Esju borist liðsauki í tveimur kanadamönnum. Liðið hefur verið frekar fámennt í vörninni og er þeim ætlað að bæta úr því.  Einsog kom fram hér fyrr í fréttinni náðu Esja góðum sigri gegn Birninum fyrr í vikunni sem ætti að gefa þeim byr undir báða vængi. Gestirnir að norðan náðu líka sigri í sínum síðasta leik og þó hópurinn hjá þeim sé ekki stór þá er í honum mikil reynsla. 

Í Egilshöllinni mætast síðan Björninn og SA í 3. flokki karla og hefst sá leikur klukkan 18.35 Þar er á ferðinni framtíðin í íslensku hokkíi en einsog áður sagði verðurð flokkurinn leikinn í einstaka leikjum þetta tímabilið.

Mynd: Elvar Freyr Pálsson

HH