Hokkíhelgin

Úr myndasafni
Úr myndasafni

Hokkíhelgin samanstendur af tveimur leikjum að þessu sinni sem fram fara í sitthvorum landshlutanum.

Á morgun, laugardag, leika í Egilshöllinni lið Bjarnarins og Víkinga í karlaflokki og hefst leikurinn klukkan 17.30. Þetta er síðasti deildarleikur Bjarnarmanna á þessu tímabili en Víkingar eiga eftir einn annan leik, gegn SR-ingum næstkomandi þriðjudag. Víkingar eru í góðri stöðu með eins stigs forskot á Björninn fyrir leikinn á morgun ásamt því að eiga fyrrnefndan leik til góða.  Nokkuð er um meiðsl í báðum liðum. Hjá heimamönnum í Birninum eru Róbert Freyr Pálsson, Bóas Gunnarsson og Gunnar Guðmundsson meiddir og hjá norðanmönnum þeir Gunnar Darri Sigurðsson og Sigmundur Sveinsson.  

Á sunnudaginn fer síðan fram 2. leikur í úrslitum kvennaflokksins þegar Skautafélag Akureyrar og Björninn mætast. Leikurinn hefst klukkan 19.00. Einsog fram kom á síðunni fyrr í dag unnu SA-konur fyrsta leikinn með tveimur mörkum gegn einu í leik sem fram fór í Egilshöll í gærkvöld. Það er því að duga eða drepast fyrir Bjarnarkonur í leiknum á sunnudaginn á meðan SA-konur vilja án nokkurs vafa hampa titlinum á heimaslóðum. SA-konur verða líklega án Silvíu Ránar Björgvinsdóttur sem meiddist í gærkvöld en ekki er annað vitað en að allir aðrir leikmenn liðanna séu heilir. Fyrir þá sem ekki eiga heimangegnt verður hægt að fylgjast með textalýsingu hjá okkur á tölfræðisíðu sambandsins en einni horfa á leikinn á SA TV.Myndir: Elvar Freyr Pálsson

HH