Hokkíhelgin


Frá leik Víkinga og SR á síðasta tímabili.                                                                       Mynd: Sigurgeir Haraldsson

Nú er að renna upp önnur hokkíhelgin á þessu tímabil og fer hún fram að öllu leyti í skautahöllinni á Akureyri á morgun laugardag.

Fyrri leikur dagsins er leikur Víkingar og Skautafélags Reykjavíkur í meistaraflokki karla og hefst leikurinn klukkan 16.30. Bæði lið töpuðu sínum fyrsta leik sínum á tímabilinu og munu því leggja sig fram við að ná í stigin þrjú sem eru í boði. Víkingar fá væntanlega liðstyrk frá síðasta leik en Stefán Hrafnsson er væntanlegur til baka og einnig hefur Sigurður Reynisson jafnað sig af veikindum. SR-ingar urðu á hinn bóginn fyrir nokkrum skakkaföllum í leiknum á síðasta þriðjudag því Kristján Gunnlaugsson, Þórhallur Viðarsson og Gunnlaugur Karlsson eru allir meiddir. Gauti Þormóðsson var veikur í fyrsta leik SR-inga en er nú orðinn leikfær.

Að karlaleiknum loknum leika síðan lið Ynja og Skautafélags Reykjavíkur í kvennaflokki. Ynju-liðið eru að þetta árið skipað yngri leikmönnum Skautafélags Akureyrar en þær hafa verið að sækja í sig veðrið jafn og þétt síðustu ár. SR-stúlkur töpuðu nokkuð stórt í sínum fyrsta leik gegn Birninum. SR-liðið er ungt og reynslulítið en vonandi mun liðið smátt og smátt styrkjast. Samkvæmt nýjum reglum sem stjórn ÍHÍ setti er kvennaliðum heimilt að lána sín á milli og ekki er ólíklegt að SR-liðið nýti sér það.

Reynt verður að vera með beina textalýsingu frá leikjunum á morgun og ef af verður kemur tengill hér á síðuna.

HH