Hokkíhelgi

Frá leik Húna og Jötna                                                                                 Mynd: Sigrún Björk Reynisdóttir

Um helgina fara fram tveir leikir á íslandsmótinu í íshokkí en báðir leikirnir fara fram í Egilshöll. 

Fyrri leikurinn er leikur Húna og Jötna og hefst hann klukkan 16.30. Húnarnir hafa ekki enn náð að hala inn stig svo þeir munu án nokkurs vafa hafa áhuga á að bæta þar úr. Húnar munu því stilla upp sínu sterkasta liði en ekki er enn vitað hvaða leikmenn koma til með að spila með Jötnum. Ólafur Hrafn Björnsson og Mika Moilanen verða í leikbanni hjá Húnum en þeir hlutu fyrr í dag allsherjarbann í úrskurði Aganefndar.

Síðari leikurinn sem hefst að leik karlanna loknum er á milli Bjarnarins og Ynja í meistaraflokki kvenna. Bjarnarstúlkur töpuðu stórt í síðasta leik sínum en nú stendur yfir mikið uppbyggingarstarf hjá þeim í kvennaflokknum. Reynt er því að spila á sem flestum leikmönnum til að stækka og breikka hópinn og er það vel. Segja má að svipaðir hlutir hafi verið í gangi hjá norðankonum síðustu tímabil og hafa þær verið að uppskera ríkulega í kvennaflokknum. 

HH