Hokkíhelgi

Hokkíhelgin er nokkuð hressileg þessa helgina en á dagskrá eru fjölmargir leikir. Allt fer þetta þó fram í Egilshöllinni og hefst í kvöld með leik Bjarnarins og SA í 2. flokki karla.

Á laugardag og sunnudag er svo heldri manna mót með þátttöku liða frá Fitchburg í Bandaríkjunum ásam íslenskum heldri mönnum. Margir stórir sigrar verða örugglega unnir á mótinu þó sumir þeirra hafi lítið með mörk að gera. Dagskrá mótsins má sjá hér.

Klukkan 18.00 er síðan leikur Bjarnarins og SA Víkinga í meistaraflokki karla en nú er farið að styttast í lok deildarkeppninnar. Með sigri tryggja SA Víkingar sér endanlega heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni. Leikmenn munu einnig sjálfsagt reyna sitt allra besta til að ganga í augun á Olaf Eller landsliðsþjálfara sem kemur til landsins á leikinn.

Að  leik karlanna loknum mætast síðan Björninn og Valkyrjur í meistaraflokki kvenna. Síðasti leikur þessara liða var æsispennandi en lauk með sigri Bjarnarstúlkna sem gerðu tvö mörk gegn einu Valkyrja. Norðanstúlkur hafa þó tryggt sér heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni sem hefst 12. mars. Fljótlega að henni lokinni hefst síðan heimsmeistaramótið og því nóg að gera hjá stúlkunum næsta mánuðinn.

Mynd: Elvar Freyr Pálsson.

HH