Hokkíhelgi

Hokkíhelgin að þessu sinni er stór og mikil og keppt bæði sunnan- og norðanlands. Keppt er í meistaraflokki bæði í kvenna- og karlaflokki ásamt því að 4. flokkur heldur til keppni á Akureyri. Áhorfendur geta átt von á hörkuleikjum því bæði í meistaraflokki kvenna og karla, eru að keppa liðin sem skipa fyrsta og annað sætið í deildunum.

Hokkíhelgin hefst í kvöld með leik Skautafélag Reykjavíkur og SA Víkinga og hefst leikurinn klukkan 20.00. Sömu lið leika síðan aftur á morgun og hefst sá leikur klukkan 18.30. SR-ingar eru fimm stigum á eftir Víkingum og því svolítið með bakið upp við battann á meðan Víkingar eru í þægilegri stöðu þegar kemur að baráttunni um heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni.

Liðin geta bæði stillt upp sterkum liðum í kvöld. Þó er Steinar Páll Veigarsson fyrirliði SR-inga meiddur og Sigurður S. Sigurðsson Víkingur fjarverandi.

Á morgun leika á Akureyri SA Valkyrjur og Björninn og hefst sá leikur klukkan 19.50. Valkyrjur hafa unnið alla leiki sína hingað til á íslandsmótinu og því með fullt hús stiga.  Flosrún Vaka Jóhannesdóttir er aftur að komast í sitt fyrra form og mun án vafa styrkja Bjarnarliðið. Guðrún Blöndal er hinsvegar fjarverandi úr Valkyrjum en hún er einn  af stigahæðstu leikmönnum liðsins.

Einsog áður sagði verður síðan 4. flokks mót helgina á Akureyri og má sjá dagskrá þess hér.


HH