Hokkíhelgi

Hokkíhelgin að þessu sinni fer öll fram hér sunnanland að þessu sinni og eru bæði Egilshöllin og Laugardalurinn undir.

Annað kvöld leika í Skautahöllinni í Laugardal lið Skautafélags Reykjavíkur og SA Jötna og hefst leikurinn klukkan 18.30. SR-ingar halda enn toppsæti sínu í deildarkeppnninni þrátt fyrir að síðasta helgi hafi verið þeim nokkuð dýr. SR-ingar vilja því að sjálfsögðu auka bilið aftur og munu því mæta á fullri ferð í leikinn.
SA-Jötnar eiga hinsvegar góða minningar frá síðustu heimsókn sinni í Laugardalinn. Þá unnu þeir sigur á SR-ingum 4 – 6 og kom sá sigur mörgum íshokkíáhugamanninum  töluvert á óvart.

Að leik karlanna loknum leika lið SR og SA Ynja í meistaraflokki kvenna. SR-ingar mættu á þessu íslandsmóti með lið til keppni í kvennaflokki eftir nokkurt hlé. Liðið er skipað blöndu af leikmönnum sem höfðu á árum áður leikið íshokkí og hinsvegar byrjendum. Þrátt fyrir að á móti blási hefur andinn í kringum liðið verið jákvæður og með tíð og tíma mun liðið ná að standa upp í hárinu á öðrum liðum. Lið Ynjanna er hinsvegar skipað yngri stelpum sem æfa með Skautafélagi Akureyrar. Breiddin í kvennaflokki hefur jafnt og þétt verið að aukast og þessi tvö lið eru gott dæmi um það.

Um helgina verður einnig haldið 3. flokks mót í Egilshöllinni en dagskrá mótsins má finna hér.

Mynd Sigurgeir Haraldsson

HH