Hokkíhelgi

Hokkíhelgirnar framundan verða fjölbreyttari  með hverri helginni sem líður. Að þessu sinni fer fjörið fram á tveimur stöðum á landinu, þ.e. á Akureyri og í Egilshöll.

Fjörið byrjar hjá 3. Flokki á Akureyri nokkuð snemma morguns en dagskránna á leikjum þeirra má finna hér.

Í Egilshöllinni fara hinsvegar fram tveir leiki í meistaraflokki. Karlarnir ríða á vaðið klukkan 16.30 en þá leika Björninn og SA Víkingar. Gestirnir að norðan hafa unnið báða sína leiki fram að þessu og mæta því fullir sjálfstrausts. Ingvar Þór Jónsson er meiddur í þeirra liði en ekki er vitað um fleiri leikmenn sem glíma við meiðsli. Bjarnarmenn eru samkvæmt bestu heimildum allir heilir. Þeir hafa unnið einn af þremur leikjum sínum. Reynd verður tilraunaútsending á netinu á leiknum en tengill á hana kemur inn á morgun.

Að leik karlanna loknum leika lið Bjarnarins og SA Ynja í meistaraflokki kvenna. Mikill uppgangur er nú í kvennahokkíinu hérna heima og á þessu keppnistímabili er eftir meiru fyrir stelpurnar að slægjast en verið hefur. Ekki nóg með að íslandsmeistaratitill sé í boði því einnig er sæti í landsliði sem keppir á HM sem haldið er í Reykjavík takmarkið hjá þeim öllum. Bæði lið eiga að vera fullmönnuð nema hvað Flosrún Vaka er flogin á vit ævintýrra erlendis.

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson

HH