Hokkíhelgi

Þá er að bresta á hokkíhelgi og fiðringurinn sem leikmenn eru komnir með í tærnar getur nú farið að leysast úr læðingi enda af einu og öðru að taka.

Á morgun klukkan 18.30 leika í Skautahöllinni í Laugardal Skautafélag Reykjavíkur og Jötnarnir frá Akureyri í meistaraflokki karla. SR-inga hafa bæði misst og fengið. Daniel Kolar er farinn til síns heima og Þorsteinn Björnsson er hættur í bili. Í staðinn hafa SR-ingar fengið Pétur Maack og Tómas Tjörva Ómarsson til baka frá Svíþjóð og af sjónum er komið varnartröllið Kári Valsson. Einnig er kominn í hópinn leikmaður frá Finnlandi Timo Koivumaki Hópurinn lýtur því ágætlega út hjá SR-ingum sem þetta árið verða undir stjórn Gunnlaugs Björnssonar.

Jötnarnir sem heyra undir Skautafélag Akureyrar státa af blandi af reynsluboltum og yngri leikmönnum. Eins og sjá má í þessari frétt hefur Jötna-hópurinn verið valinn en svo geta menn reynt að giska á hvaða fjórir leikmenn verða teknir úr Víkinga-liðinu til að styrkja Jötna í leiknum á morgun. Einn af þeim gæti verið Andri Már Mikaelsson, sem rétt einsog Pétur og Tómas Tjörvi, er kominn aftur til síns heima. Þjálfari beggja liða Skautafélags Akureyrar er Josh Gribben rétt einsog á síðasta ári.   

Að karlaleiknum loknum verður blásið til leiks í meistaraflokki kvenna en þar eigast við Skautafélag Reykjavíkur og Valkyrjurnar.

Skautafélag Reykjavíkur sendir nú lið til keppni í mfl. kvenna í fyrsta skipti um árabil og er það mörgum ánægjuefni. Fjölgað hefur jafnt og þétt í hópnum hjá stelpunum og í dag var gengið frá félagaskiptum Sigrúnar A. Árnadóttir og Margrétar Ö. Vilhjálmsdóttir yfir í hóp SR-inga. Þar sem félagið hefur ekki tekið þátt í íslandsmóti undanfarin ár er því einnig heimilt að fá að láni leikmenn til að styrkja lið sitt. Þjálfari kvennaflokksins er Helgi Páll Þórisson.

Valkyrjurnar er annað af kvennaliðum sem Skautafélag Akureyrar sendir til keppni. Liðið hefur æft vel undafarnar vikur en mikill stígandi hefur verið í kvennahokkíinu fyrir norðan. Jónína Margrét Guðbjartsdóttir er mætt á fullu til leiks og munar þar um minna. Sarah Smiley sér um þjálfun liðsins einsog hún hefur gert undafarin ár.

Um helgina fer einnig fram 4. flokks mót í Egilshöllinni og þar verður án nokkurs vafa hart tekist á. Dagskránna af því móti má sjá hér.

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson

HH