Hokkíhelgi

Hokkíhelgin er fjölbreytt að þessu sinni og leikið bæði í Egilshöll og Skautahöllinni í Laugardal.

Fjörið hefst í kvöld klukkan 20.30 í Skautahöllinni í Laugardal. Þá leika í 2. flokki lið Skautafélags Reykjavíkur og Skautafélags Akureyrar. SR-ingar hafa átt erfitt uppdráttar í 2. flokk þetta árið en þó hefur mátt sjá stíganda hjá liðinu. SA-menn eygja hinsvegar enn von á því að ná sigri í flokknum. Sömu lið leika aftur á sama stað á laugardeginum og hefst sá leikur klukkan 18.30

Á laugardagskvöldinu er hinsvegar stórleikur í kvennahokkíinu þegar Bjarnarstúlkur mæta SA-eldri í Egilshöllinni. Leikurinn hefst klukkan 20.00. Liðin berjast um heimaleikjarétt í úrslitakeppinni sem fram fer í apríl. Bjarnarstúlkur hafa fjögurra stiga forystu á SA-eldri og með sigri á morgun myndu Bjarnarstelpur fara langt með að tryggja sér heimaleikjaréttinn. Eins og fram kom hérna í síðunni í vikunni hefur SA-eldra liðið verið að styrkjast undanfarnar vikur en spurningin er hvort það dugir eður ei.

Á morgun laugardag og einnig sunnudag verður einnig mót í 4. flokki. Mótið fer fram í Egilshöllinni og má sjá tengil að dagskrá mótsins hér hægra megin á síðunni. Reynt verður að hafa mótið í beinni textaútsendingu á netinu þannig að þeir foreldrar sem ekki sjá sér fært að mæta geti fylgst með.

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson

HH