Hokkíhelgi

Hokkíhelgin að þessu sinni er nokkuð óvenjuleg. Hún samanstendur af einum leik í kvennaflokki og mörgum æfingum hjá þremur landsliðum.

Byrjum á kvennaleiknum sem er á morgun, laugardag. Þar eigast við Björninn og SA-yngri. Sömu lið áttust við um síðustu helgi og þá fóru Bjarnarstelpur æði illa með ungviðið að norðan. Með sigri fara Bjarnarstelpur langt með að tryggja sér heimaleikjaréttinn í úrslitakeppni sem haldin verður um miðja apríl. Leikurinn hefst klukkan 18.00 á morgun og er að sjálfsögðu í Egilshöll.

Eins og áður sagði er restin af hokkíhelginni æfingar og æfingar hjá þremur landsliðum ÍHÍ. Bæði er um að ræða æfingar hjá kvenna- og karlandsliðinu en einnig verður U18 ára liðið á æfingum enda farið að styttast í ferð þess til Narva í Eistlandi. Það verður því nóg um að vera í höllunum um helgina og sjálfsagt að líta við bæði á leiki og æfingar ef áhugi er fyrir hendi. Karlalandsliðin tvö verða svo tilkynnt fljótlega í næstu viku enda undirbúningur á fullu við farmiðakaup og annað er ferðalögunum tilheyrir. Ekki liggur alveg fyrir hvenær kvennaliðið verður tilkynnt en það lið mun taka þátt í NIAC-mótinu sem fram fer á Akureyri í byrjun Apríl.

Þess má svo að lokum geta að um helgina fer fram minningarmótið um Magnús Finnsson. Þar munu heldri menn taka á öllu sínu og jafnvel meiru.

HH