Hokkíhelgi

Leikur helgarinnar er leikur Bjarnarins og Skautafélags Akureyrar. Leikurinn fer fram í Egilshöll og hefst klukkan 16.30. Síðasti leikur liðanna var bráðfjörugur og því ekki ástæða til að ætla annað en að leikurinn á morgun verði mikil og góð skemmtun.

Bjarnarmenn munu að sjálfsögðu gera sitt allra besta til að halda sigurgöngunni áfram. Þeir virðast komnir í hörku form og þrátt fyrir að liggja aðeins til baka í fyrstu tveimur lotunum í síðasta leik náðu þeir að knýja fram sigur í þeirri þriðju. SA-menn verða því að bæta í þrekið og halda hraðanum niðri ætli þeir  sér að halda í við heimamenn. SA-menn eru á hinn bóginn að ná upp mjög góðu spili manni fleiri (power play) en öll þeirra mörk í síðasta leik, komu við þær aðstæður. Bjarnarmenn verða því að forðast refsiboxið einsog heitan eldinn ef ekki á illa að fara.

Þrír leikmanna liðanna verða í leikbanni í leiknum. Það eru þeir Matthías S. Sigurðsson og Sigursteinn Atli Sighvatsson úr Birninum og Josh Gribben þjálfari og leikmaður SA. Einnig verður Trausti Bergmann fjarri góðu gamni en hann vinnur þessa dagana erlendis við pípulagnir. Varnarmaðurinn Sigurður Óli Árnason gæti orðið með SA-mönnum á morgunn en hann hefur verið meiddur undanfarnar vikur. 

Fimm stigahæðstu (leikir í sviga) leikmenn Bjarnarins eru:

Gunnar Guðmundsson  21 (13)
Birgir J. Hansen          16 (10)
Úlfar J. Andrésson      11 (13)
Brynjar F. Þórðarson   10 (10)
Trausti Bergmann        8 (6) 

Hjá SA eru það hinsvegar þessir leikmenn:

Stefán Hrafnsson 18 (12)
Sigurður S Sigurðsson 13 (11)
Orri Blöndal 12 (12)
Ingvar Þór Jónsson 10 (10)
Rúnar F. Rúnarsson 9 (8)

Í leiknum á morgun verður það samt ekki síður varnarleikur og markvarsla sem kemur til með að ráða úrslitum. Ástæða er til að hvetja stuðningsmenn liðanna til að mæta og hvetja sitt lið.

HH