Hokkíhelgi

Þá er komið að sunnan heiða hokkíhelgi því á morgun leika Björninn og Skautafélag Akureyrar í meistaraflokki karla. Leikurinn hefst á skaplegum tíma eða klukkan 16.30 og fer að sjálfsögðu fram í Egilshöll.

Einsog áður hefur komið fram hérna á síðunni gengur Bjarnarmönnum í meistaraflokki herfilega illa að sækja sigur gegn Skautafélagsmönnum frá Akureyri. Spurningin sem þeir spyrja sig, hlýtur að vera, hverju þurfi að breyta til að svo geti orðið. Að sjálfsögðu verða leikmennirnir að hafa trú á því að það sé gerlegt því annars mun alltaf illa fara.

Að sjálfsögðu má segja að akkúrat öfugt sé komið fyrir SA-mönnum. Þeir mæta í hvern einasta leik gegn Bjarnarmönnum fullir af sjálfstrausti og hafa til þess fulla ástæðu enda með hálfgert hálstak á drengjunum úr Grafarvogi.

Þeir sem mæta í Egilshöllina klukkan 16.30 munu sjá hvort einhver breyting verður á úrslitunum í leikjum milli þessara liða eða hvort allt verður áfram óbreytt. Þess má geta að Josh Gribben er mættur aftur til leiks í liðið SA en hann hefur verið fjarverandi undanfarið af persónulegum ástæðum.

Að leik liðanna loknum leika sömu lið í 3. flokki karla.

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson.

HH