Hokkíhelgi

Hokkíhelgin að þessu sinni er tvöföld meistaraflokkshelgi. Norðanmenn úr Skautafélagi Akureyrar bruna í bæinn og heimsækja Bjarnarmenn í bæði kvenna- og karlaflokki.

Leikur karlanna hefst klukkan 16.30 sem er óvenjusnemma fyrir íshokkíleik og gefur ungum jafnt sem öldnum tækifæri á að mæta á leikinn. Leikirnir fara að sjálsögðu fram í Egilshöllinni og ekki er betur vitað en að Björninn mæti með sitt sterkasta lið. SA-menn hafa orðið fyrir einhverjum skakkaföllum en það kemur betur í ljós á leiknum hvað verður. Björninn hefur hingað til tapað öllum sínum leikjum og því þurfa leikmennirnir að fara að girða sig í brók eigi eitthvað að verða úr vetrinum hjá þeim. SA-menn töpuðu hinsvegar stigum á móti SR í leik liðanna fyrir norðan um daginn og hafa ekki mikinn áhuga á að tapa öðrum leik.  

Í kvennaleiknum sem hefst að karlaleiknum loknum (ætti að vera um klukkan 19.00) eru að Björninn og SA eldri sem leika og þar fara tvö taplaus lið. Eins og flestir vita teflir SA-liðið fram eldri og yngri kvennaliði þetta árið en leyfilegt er að flytja leikmenn milli flokka þegar lið teflir fram tveimur liðum. Töluverð aukning er í kvennahokkíinu og segja má að þetta sé að sumu leyti eðlilegasta leiðin til af fjölga liðum í hokkíinu hérna heima. 

HH