Hokkíhelgi

Á morgun laugardag er frábær dagur til að skella sér á hokkíleik eða leiki. Klukkan 18.30 hefst nefnilega leikur Skautafélags Reykjavíkur og Skautafélags Akureyrar í meistaraflokki karla og er leikurinn að sjálfsögðu í Laugardalnum.

Eins og menn muna komu SR-ingar mörgum á óvart á síðasta keppnistímabili þegar þeir unnu norðanmenn í úrslitum íslandsmótsins. Þeirri staðreynd vilja norðanmenn gleyma sem fyrst og fyrsta lóðið á vogarskálarnar til þess, er að hafa sigur í Laugardalnum annað kvöld. Bæði lið hafa misst aðeins af mannskap því að í Mörrum er tríó sterkra SR-inga sem spiluðu með liðinu á síðasta ári. Þar má einnig finna SA-drenginn Andra Má Mikaelsson, svo missir beggja liða er nokkurr. Sindri Björnsson hafði svo vistaskipti milli liða í vikunni og Þórhallur Viðarsson og Birkir Árnason eru komnir aftur af stað hjá SR-ingum. Því gæti orðið um hörkuleik að ræða og um að gera að drífa sig á leikinn.

Að leik loknum leikur 3. flokkur sömu liða.

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson

HH