Hokkíhelgi

Þrátt fyrir að hokkítímabilið sé nú langt gengið þetta árið má segja að helgin framundan sé ein af þeim stærri á tímabilinu. NIAC-mótið er enn í fullum gangi á Akureyri en því lýkur á morgun. Íslenska liðið lék tvo leiki í gær. Í fyrsta leiknum steinlá liðið fyrir danska liðinu Hvidovre Wolves 9 - 0 en í seinni leiknum náðu þær töluvert betri leik gegn Malmö Redhawks. Sá leikur tapaðist engu að síður 5 - 4 eftir að íslenska liðið hafði haft forystu lengst af leiks. Leikir þessir fara í reynslubankann hjá stelpunum okkar og sem betur fer bætist smátt og smátt í hann. Mótið hefur í alla staði tekist mjög vel, skipulagning góð og gestirnir ánægðir með móttökurnar.

Jafnframt NIAC-mótinu verða tveir leikir í 2. flokki milli Skautafélags Akureyrar og Skautafélags Reykjvíkur og fara báðir leikirnir fram á Akureyri þó annar þeirra teljist heimaleikur SR. Fyrri leikurinn er í kvöld klukkan 20.00 en sá síðar á morgun laugardag klukkan 18.00.

Börnin fá líka sitt íshokkí því að um helgina er 6. og 7. flokks mót á Akureyri og með því lýkur keppninni í þessum aldursflokki á þessu tímabili.

Þeir sem kjósa íshokkí, verða því að vera staddir norðan heiða þessa helgina, því þar er allt fjörið.

HH