Hokkíhelgi

Fjölmargir leikir fara fram á Íslandsmótinu í íshokkí um helgina. Hafist verður handa í kvöld með leik Skautafélags Reykjavíkur og Skautafélags Akureyrar í meistaraflokki karla og hefst leikurinn klukkan 21.00 og fer að sjálfsögðu fram í Laugardalnum. Smá breytingar hafa orðið á liðunum síðan fyrir áramót. Kári Valsson hefur verið að mæta á æfingar hjá SR-ingum og styrkir það vafalaust varnarleik liðsins. Á hinn bóginn er Arnþór Bjarnason horfinn á braut í bili og er það skarð fyrir skildi í sóknarleik liðsins. SA-menn sóttu hinsvegar um leikheimild fyrir Rúnar Rúnarsson sem leikið hefur og sungið í Danmörku undanfarin ár. Ekki er enn vitað hvort leikheimildin verður gengin í gegn fyrir kvöldið.

Þeir sem vilja síðan verða vitni að 110% leikgleði skella sér á 6. og 7. flokks mótið sem verður í Laugardalnum í fyrramálið en einsog flestir vita fer ÍHÍ að tilmælum ÍSÍ og telur ekki mörk í þessum leikjum. Það virðist engu breyta fyrir börnin því þau skemmta sér konunglega.

Um kvöldið leika síðan aftur meistaraflokkar Skautafélags Reykjavíkur og Skautafélags Reykjavíkur á sama stað en að þessu sinni hefst leikurinn klukkan 19.00. Strax að honum loknum leika síðan 3ji flokkur sömu liða.

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson

HH