Hokkíhelgi

Í kvöld og annað kvöld leika Björninn og SA í meistaraflokki kvenna. Leikurinn í kvöld hefst klukkan 20.30 en leikurinn annaðkvöld klukkan 18.30. Þetta árið virðast liðin vera nokkuð jöfn að getu en Bjarnarstelpur byrjuðu með góðum sigri í fyrsta leiknum en í næstu tveimur leikjum snéru SA-stúlkur blaðinu við og höfðu sigur.

Kvennahokkíið er annars á góðri siglingu þessa dagana og skemmst að minnast þess að landslið kvenna fékk í vikunni styrk úr afrekskvennasjóði Glitnis. Sem dæmi má nefna að 10 stelpur mættu á æfingu hjá SR í vikunni og vonandi verður hægt að halda í þann hóp og bæta við. Byrjendur hafa líka verið að koma í kvennahokkí hjá hinum liðunum og fyrir leikinn í kvöld og á morgun munu þær fá að spreyta sig á svellinu. Þennan aukna áhuga á kvennahokkí má rekja bæði til góðs árangurs landsliðsins í síðustu Heimsmeistarakeppni en einnig markviss starfs kvennanefndar og fleiri aðila til að auka veg kvennahokkís.

Að leik loknum hjá stúlkunum á laugardagskvöldið var áætlað að sömu lið spiluðu í 3ja flokki en þeim leik hefur verið frestað af óviðráðanlegum orsökum.

Myndin var tekin í hófi sem Glitnir hélt vegna afrekskvennasjóðs. Á henni má m.a. sjá fyrir miðri mynd fulltrúa ÍHÍ við afhendinguna en þær Hanna Rut Heimisdóttir fyrirliði, Flosrún Vaka Jóhannesdóttir aðstoðarfyrirliði og Margréf Ólafsdóttir gjaldkeri og formaður kvennanefndar ÍHÍ.

HH