Hokkíhelgi

Hokkíhelgin að þessu sinni fer að öll fram á Akureyri. Liðsmenn Skautafélags Reykjavíkur munu taka sér ferð á hendur norður og leika þar þrjá leiki sem fram fara í dag og á morgun.

Fyrst ber að nefna tvo leiki í meistaraflokki en sá fyrri milli SA og SR fer fram í kvöld og hefst klukkan 22.00. Norðanmenn eru að sjálfsögðu geypilega áhugasamir um að koma sér vel fyrir einir á toppnum meðan SR-ingar gera sér ljóst að þeir verða að stela stigum. Annars eiga þeir á hættu að missa SA-liðið langt fram úr sér og þá gæti eltingaleikurinn orðið erfiður. Bæði lið hafa bætt við sig leikmanni síðan í síðasta leik, Orri Blöndal SA-maður er kominn frá Svíþjóð reynslunni ríkari. SR-ingar hafa hinsvegar fengið Þorstein Björnsson inn í liðið sitt aftur en báðir þessir leikmenn hafa verið fastamenn í unglingalandsliðum okkar og því fengur af þeim.

Seinni leikurinn milli þessara liða er á morgun, laugardag, og hefst klukkan 18.00. 

Strax eftir að meistarflokksleiknum er lokið leika sömu lið í þriðja flokki en þau eru jöfn að stigum í íslandsmótinu þannig að þar verður ekki minna tekið á en í hinum leikjunum tveimur. Leikur 3ja flokksins ætti að hefjast uppúr klukkan 20.30.

Myndina tók Ómar Þór Edvardsson

HH