Hokkíhelgi

Eitthvað voru menn farnir að hafa áhyggjur af því að fresta þyrfti leik eða leikjum Skautafélags Akureyrar og Skautafélags Reykjavíkur vegna slæmrar veðurspár. Það er nú aldeilis ekki upp á teningnum enda hefur nokkuð ræst úr spánni og í þessum skrifuðu orðum eru Akureyringar að tygja sig til brottfarar. Alls verða þrír leikir leiknir um helgina og fer sá fyrsti fram í kvöld klukkan 21.00 í Laugardalnum. Þar leika meistararflokkar liðanna og svo aftur á morgun klukkan 18.30. Að þeim leik loknum leikur 3ji flokkur þannig að nóg verður um að vera í Laugardalnum.

SA-menn vilja að sjálfsögðu hefna ófaranna síðan í fyrsta leik liðanna sem fram fór á Akureyri en þar komu SR-ingar mörgum á óvart með góðum sigri. Ekki er annað vitað en að allir leikmenn beggja liða séu heilir heilsu en aganefnd dæmdi þó Tómas Tjörva Ómarsson í leikbann núna skömmu fyrir hádegi.

HH