Hokkíhelgi

Frá leik liðanna fyrr í vetur.                                                                             Mynd: Sigurgeir Haraldsson

Hokkíhelgin að þessu sinni fer fram á suðvestur horninu og sejga má að eldri leikmenn bæði í karla- og kvennaflokki munu hafa nóg fyrir stafni. Lengi vel leit reyndar út fyrir, skv veðurspá, að norðanmenn næðu ekki suður en þegar leið á gærkvöldið fór spáin að lýta betur út bæði hvað varðaði vindstyrk og úrkomu. Öll dagskráin sem var á planinu fer þvi fram.Fjörið hefst strax í kvöld með tveimur leikjum.

Í Egilshöllinni mætast Björninn og Víkingar í meistaraflokki karla og hefst sú viðureign klukkan 19.30. Bæði lið eru áfjáð um að ná í stigin sem eru í boði að þessu sinni enda keppnin milli þeirra og SR-inga hörð um hvaða lið munu mætast í úrslitum í mars næstkomandi.  Liðin léku síðast í lok nóvember og þá unnu Víkingar öruggan sigur 1 – 6 en leikir liðanna fyrir þann leik höfðu verið jafnir og spennandi.

Í Laugardalnum mæstast síðan klukkan 20.00 lið Skautafélags Reykjavíkur og Ynja. Þetta er annar leikur liðanna á stuttum tíma en sá síðasti endaði með stórum sigri Ynja sem gerðu 16 mörk gegn 1 marki SR-kvenna. Það verður því á brattann að sækja fyrir SR-konur rétt einsog hefur verið í öðrum leikjum vetrarins.

Á morgun klukkan 19.30 er síðan annar leikur í meistaraflokki kvenna en þá mætast Björninn og Ásynjur í meistaraflokki kvenna. Ásynjurnar eru taplausar á þessu tímabili og vilja sjálfsagt, ef nokkur möguleiki er , ljúka tímabilinu með fullt hús stiga. Bjarnarkonur hafa hinsvegar verið að safna liði og því aldrei að vita nema þær geti strítt Ásynjum.

Ofan á allt þetta er síðan fyrirhugaðar landsliðsæfingabúðir en frá þeim var sagt í sérstakri frétt sem finna má hér.

HH