Hokkíhelgi

Úr myndasafni
Úr myndasafni

Uppistaðan í hokkíhelginni að þessu sinni eru þrír leikir en tveir þeirra eru í meistaraflokki karla.

Það verður samt þriðji flokkur sem hefur leikinn því klukkan 16.30 á morgun, laugardag, leika SA og SR í þeim flokki á Akureyri.

Strax á eftir þeim leik leika síðan sömu félög í meistaraflokki karla.  Síðast þegar liðin mættust unnu norðanmenn í SA Víkingum nokkuð öruggan sigur með 6 mörkum gegn þremur en leikurinn var þó jafn fram á síðustu lotu þegar Víkingar sigu framúr. Eitthvað hefur verið um meiðsl í báðum liðum en Orri Blöndal og Andri Már Mikaelsson verða líklega með Víkingum á morgun. Hjá SR-ingum voru Baldur Líndal og Daníel Steinþór Magnússon ekki með í síðasta leik með meistaraflokki. Þeir léku hinsvegar með 2. flokki í vikunni og hafi þeir sloppið heilir frá þeim leik er ekki ólíklegt að þeir verði með.

Á morgun verður einnig leikið í Laugardalnum en þá mætast UMFK Esja og Björninn í karlaflokki og hefst sá leikur klukkan 18.45. Einu stigi munar á liðunum í töflunni og því liðin örugglega mjög áhugasöm um að ná í stigin þrjú sem eru í boði. Esjumenn eru allir heilir eftir því sem best er vitað en Róbert Freyr Pálsson hafði verið frá í undanförnum leikjum. Daniel Kolar sem leikið hefur með Birninum undanfarið fékk félagaskipti yfir í Esju í vikunni en ekki er vitað hvort hann verður með liðinu á morgun. Bjarnarmenn bættu við sig tveimur erlendum leikmönnum, þeim bræðrum Oskars- og Edgarrs Valters og spiluðu þeir með liðinu nýkomnir til landsins í síðasta leik. Arnar Breki Elfar hefur hinsvegar lagt skautana á hilluna margfrægu, í bili að minnsta kosti og Trausti Bergmann á ekki heimangengt í leikinn.

Mynd: Elvar Freyr Pálsson.

HH