Hokkíhelgi

Hart tekist á í leik Víkinga og SR fyrr í vetur                                                       Mynd: Sigurgeir  Haraldsson

Hokkíhelgin að þessu sinni er síðasta helgin þar sem leikið er í meistaraflokkum karla og kvenna.

Í Skautahöllinni í Laugardal mætast í meistaraflokki karla lið Skautafélags Reykjavíkur og Víkinga og hefst leikurinn klukkan 20.00. Leikurinn er næst síðasti leikurinn í deildarkeppninni en ásamt þessum leik eiga Víkingar eftir leik gegn Húnum. Úr þessum leikjum þurfa Víkingar öll stigin sex til að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni og pressan því nokkuð á þeim. SR-ingar hafa hinsvegar þegar tryggt sér sæti í úrslitakeppninni ásamt heimaleikjaréttinum. Bæði lið munu stilla upp sterkum liðum, Pétur Maack og Þórhallur Viðarsson eru enn á sjúkralistanum hjá SR-ingum en hjá Víkingum eru allir heilir. Að leik loknum fá SR-ingar afhentan deildarbikarinn.

Á Akureyri mætast klukkan 22.00 lið Ásynja og Skautafélags Reykjavíkur í meistaraflokki kvenna. Þetta er jafnframt síðasti deildarleikurinn í meistaraflokki kvenna á þessu tímabili en fljótlega heldur landslið kvenna til Seoul í Suður-Kóreu til keppni í HM kvenna. Að þeirri keppni lokinni verður úrslitakeppnin um íslandsmeistaratitilinn leikin. SR-konur hafa átt erfitt uppdráttar þetta árið enda liðið með marga nýliða innanborðs. Ásynjur hafa hinsvegar besta vinningshlutfallið þetta árið og munu rétt einsog SR-ingar fá deildarbikarinn afhentan á morgun.

Í Skautahöllinni í Laugardal fer síðan fram helgarmót í 3. flokki en dagskrá þess má finna hér.

HH