Hokkíhelgi

Úr leik Ásynja og Bjarnarins fyrr í vetur.                                                          Mynd: Elvar Freyr Pálsson

Um helgina voru fyrirhugaðir þrír leikir á íslandsmótinu í karla- og kvennaflokki. Einsog fram kom í frétt hér á síðunni í gær var leiknum sem fram átti að fara í kvöld frestað. Leikirnir sem voru fyrirhugaðir á sunnudaginn voru því færðir fram um sólahring og verða leiknir á morgun, laugadag.


Fyrri leikurinn er leikur Jötna og Bjarnarins í meistaraflokki karla. Leikurinn hefst klukkan 16.30. Bjarnarmenn fengu nokkurn skell í sínum síðasta leik þegar þeir biðu lægri hlut gegn Víkingum og vilja því án nokkurs vafa koma sér á beinu brautina aftur. Jötnar á hinn bóginn leika á heimavelli og munu án nokkurs vafa reyna að stela stigum af gestunum. Enginn leikmaður er í leikbanni en einhver meiðsli hafa verið í gangi og þá sérstaklega hjá Birninum. 

Að leik karlanna loknum leika Ynjur og Björninn í meistaraflokki kvenna. Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni bera norðankonur höfuð og herðar yfir hin liðin í deildinni. Uppbyggingin er þó hafin og vonandi fer hún að skila sér þegar á líður. Flosrún Vaka Jóhannesdóttir hefur hafið aftur æfingar með Birninum en á ekki heimangengt í leikinn á morgun. 

HH