HM kvenna hafið – Stórt skref stigið í sögu íshokkís kvenna á Íslandi


HM kvenna í íshokkí var formlega sett í Skautahöllinni í Laugardal í gærkvöld. Viðar Garðarsson formaður ÍHÍ bauð gesti velkomna til leiks og Christer Englund stjórnarmaður í Alþjóða Íshokkísambandinu og formaður Sænska Íshokkísambandssins og Ólafur E. Rafnsson formaður ÍSÍ tóku einnig til máls.  Þeir voru sammála um að þetta væri stór dagur í sögu íshokkís og sérstaklega í sögu íshokkís kvenna þar sem þetta er í fyrsta sinn sem Heimsmeistaramót í íshokkíi kvenna er haldið á Íslandi. Fyrir utan erlendu liðin og fararstjórnir þeirra sem hingað eru komin, þá eru hér einnig komnir fulltrúar frá IIHF Alþjóða Íshokkísambandinu til þess að sinna skyldustörfum við mótið og meðal þeirra eru kvendómarar frá 8 löndum til þess að dæma leikina. Íshokkísamband Íslands býður þau öll velkomin til Íslands.
 
Suður Kórea og Nýja Sjáland sigurvegarar fyrsta dags
Fyrstu leikir mótsins fóru þannig að Suður-Kórea vann Suður-Afríku 6:0 og Nýja Sjáland vann Ísland 1:3.
Okkar stelpur fengu draumabyrjun þegar Birna Baldursdóttir skoraði eftir tæplega tíu mínútna leik með stoðsendingu frá Guðrúnu Blöndal. Ísland var yfir í fjórar mínútur en þá jafnaði Casey Redman, fyrirliði Nýja-Sjálands og Emma Gray bætti við marki á 28. mínútu. Leikurinn var hins vegar spennandi fram á lokamínútuna, mikill sigurvilji var greinilegur hjá íslensku stelpunum og þær ekki á því að gefast upp. Það var svo á síðustu mínútu leiksins að Ashley Cunningham skoraði þriðja mark Nýja Sjálands og úrslitin voru ráðin.
Einn leikur fer fram í dag en þá mætir Suður-Afríka óþreyttu liði Rúmeníu en næsti leikur Íslands er á þriðjudagskvöld gegn Rúmeníu.