HM - Konur - 2009

Þá eru það næst konurnar. Eins og alþjóð veit þá náðu þær þeim frábæra árangri að koma sér upp úr 4. deildinni. Þar sem er ekki skipt í riðla í þessari deild fer aðeins eitt lið upp og eitt niður úr 3ju deild á móti. Það var hlutverk stelpnanna frá Kóreu að falla en sigurvegarar í 3ju deildinni urðu stelpurnar frá Stóra-Bretlandi. Í 3ju deildinni þetta árið og þ.a.l það næsta verða ásamt Íslandi lið frá Slóveníu, Króatíu, Belgíu, Ungverjalandi og lið Ástralíu sem féll úr 1. deild. Nokkur getumunur var á liðunum í riðlinum sem kemur svo sem ekki á óvart, enda svipað verið upp á teningnum í karladeildum um áraraðir. Íslensku stelpurnar munu að öllum líkindum hefja undirbúning sinn fyrir þetta mót eins snemma og mögulegt er en enn á eftir að koma í ljós hvernig mótahaldi þeirra hérna heima verður háttað næsta ár. Enginn vafi er á að þessi góði árangur liðsins mun hafa góð áhrif á kvenna hokkí hér á landi. Uppgangur kvennahokkís á heimsvísu er töluvert mikill og sumir hafa sagt að kvennahokkí á Íslandi sé nú í sömu sporum og kvennafótboltinn var hér heima fyrir svona sirka 10 árum.

Myndina tók Magrét Ólafsdóttir á síðustu heimsmeistarakeppni sem fram fór í Rúmeníu.

HH