HM í Zagreb - Pistill 4 - Sigur á Spáni, 6 - 3

Ljósmynd: Kristján Maack
Ljósmynd: Kristján Maack

Í dag var stór dagur fyrir íslenskt íshokkí þegar Ísland lagði Spán í fyrsta skiptið með sannfærandi 6 – 3 sigri hér á HM í Zagreb.  Eftir að hafa fylgst með spænska liðinu hér á þessu móti þá var okkur ljóst að við ættum góða möguleika gegn þeim.  Leikurinn var mjög jafn og spennandi þrátt fyrir þriggja marka mun, en leikurinn hrundi hjá þeim spænsku á lokamínútunum.  Björn Sigurðsson og Orri Blöndal skoruðu sín fyrstu mörk fyrir karlalið í þessum leik og í leikslok var Ólafur Björnsson valinn besti leikmaður íslenska liðsins.

Það er stórt skref í rétta átt að leggja Spánverja að velli en þeir hafa verið okkar mótherjar á fjölmörgum mótum í gegnum tíðina.  Reyndar hefur þeim gengið mjög illa á þessu móti og þrátt fyrir að einn leikur sé eftir þá er ljóst að þeir eru fallnir niður í B-riðil.  Það var staðest í gær þegar Ástralir komu á óvart og lögðu Belga 3 – 1.

Í dag er svo síðasti keppnisdagur og þá mætum við Serbíu í úrslitaleik um 3. sætið.  Leikurinn hefst á íslenskum tíma kl. 14:30 – Áfram Ísland!