HM í Zagreb - Pistill 3 - tap gegn Króatíu, 1 - 6

Ljósmynd: Kristján Maack
Ljósmynd: Kristján Maack

Þá er þriðja keppnisdegi lokið hér í Zagreb og þar biðum við lægri hlut fyrir gestgjöfunum Króötum.  Það var svo sem vitað fyrir fram að það yrði við ramman reip að draga en strákarnir geta engu að síður borið höfuðuð hátt eftir leikinn því þeir börðust vel og lengst af var leikurinn í járnum.  Staðan eftir 2. lotu var 1 – 0 og ekkert annað lið hér á mótinu hafði staðið eins í Króatíu.  Dennis átti stórleik í markinu og varði m.a. eitt víti, sitt 5. á mótinu.

Það var hins vegar nokkurra mínútna kafli í 3. lotu sem gerði út um leikinn og við fengum á okkur 5 mörk áður en Emil klóraði aðeins í bakkann fyrir okkur og skoraði eina mark Íslands, lokastaðan 6 – 1.  Þess má geta að flestir leikmanna króatíska liðsins eru atvinnumenn úr m.a. úrvalsdeildum Finnlands og Slóvakíu og nokkrir voru draftaðir í NHL.

Mótið er hins vegar merkilega jafnt og erfitt að spá fyrirfram um úrslit.  Á morgun mætum við Spánverjum og á laugardaginn Serbum.  Miðað við önnur úrslit á mótinu má reikna með hörku viðureignum og planið er einfalt, vinna báða leikina og ná bronsverðlaununum.

Í dag er hins vegar enginn leikur, en ýmislegt á dagskránni s.s. liðsmyndataka, ísæfing og video fundir.

Kristján Maack tók myndir af leiknum sem má skoða HÉR