HM í Zagreb - Pistill 2 - Sigur á Ástralíu 3 - 2

Breki lætur finna fyrir sér. Ljósm: KMAACK
Breki lætur finna fyrir sér. Ljósm: KMAACK

Annar keppnisdagur hér í Zagreb var til muna ánægjulegri en sá fyrsti.  Dagskráin var sú sama, morgunmatur kl. 9:00 og svo tók við video fundur þar sem Darren Rumble var búinn að fara nákvæmlega yfir leik gærdagsins og taka saman bæði góða og slæma spretti úr leiknum.

Það var allt annað að sjá til liðsins í upphitun og miklu betri stemning í hópnum og loksins komin tónlist í búningsklefann.  Einhver tónlistarágreiningur mun hafa komið upp, en val á tónlist fer eftir þeirri ágætu meginreglu – sá frekasti ræður.

Lið Ástrala er gott og okkar skásti árangur gegn þeim fyrir daginn í dag var 3 – 0 ósigur 2008.  Það er skemmst frá því að segja að sigur vannst í vítakeppni þar sem Dennis Hedström skellti í lás og varði öll vítin, og Emil skoraði úr sigurvítinu.

Þessi sigur var sögulegur og enn einu sinni tekur liðið skref í rétta átt.  Ekki einasta var þetta fyrsti sigurinn á Ástralíu, heldur er þetta í fyrsta skiptið sem Ísland sigrar liðið sem er að koma niður úr 1. deild en Ástralía hefur rokkað á milli deilda síðustu ár.

Í dag er svo frídagur, fallegur dagur með sól á himni og sjálfsagt um 20 gráður á mælinum.  Dagskráin fram að hádegi er video fundur og ísæfing en eftir hádegi er frí og stefnan tekin á miðborg Zagreb.

Á morgun verður erfiðasti leikur keppninnar því þá eru það heimamennirnir Króatar, sem virðast vera með lang sterkasta liðið hér á þessu móti.