HM í Belgrad - Pistill 1

HM í Belgrad - Pistill 1

Á föstudaginn lagði íslenska karlalandsliðið af stað til Tyringe í Svíþjóð, en endanlegur áfangastaður er Belgrad í Serbíu þar sem liðið mun taka þátt í 2. deild, a-riðils heimsmeistaramótsins í íshokkí. Ferðalagið hingað gekk vel, allar áætlanir stóðust. Flogið var til Kaupmannahafnar og rúta sótti svo okkur á Kastrup flugvöll og keyrði með okkur yfir brúna ¨Bruen¨ til Tyringe í Svíþjóð.

Hér i þjálfunarbúðunum er jafnframt allt eins og best verður á kosið, hótelið gott og skautahöllin í göngu færi við hótelið. Ferðalagið og það æfinga- og keppnisplan sem sett var upp hér í Tyringe hjá landsliðsþjálfarannum Tim Brithen hefur gengið vel. Liðið æfir og snæðir í Tyringe skautahöllinni sem er ekki langt frá þar sem liðið býr. Tíminn hefur einnig verið nýttur í vel skipulagða Power Point fundi með liðsmönnum þar sem farið hefur verið yfir leikskipulag, komandi andstæðinga ofl.

Í gærkvöld lék íslenska liðið svo æfingaleik gegn sænska 1. deildar liðinu Helsingborg, sem varla þarf að kynna. Það er ekki að ástæðulausu að Svíar eru eitt að bestu þjóðum heims í íshokkí. Það eru allstaðar hörkulið og leikmenn hjá þeim eins og sýndi sig í þessum leik. Leiknum lauk með sigri þeirra, sem gerði 5 mörk gegn engu marki íslenska liðsins, þrátt fyrir að leikurinn var vel leikinn af íslenska liðinu og mörkin segja ekki allt um gang leiksins. Þessi æfingaleikur var frábært tækifæri fyrir þjálfara og leikmenn íslenska landliðsins til að komas í gang fyrir heimsmeistarakeppnina sem framundan er í Belgrad. Fá tækifæri til að mæta alvöru íshokkíliði með miklum hraða og leikhæfni, og fá þannig tækifæri til að stilla menn saman og undirbúa þá fyrir komani mót.

Æfingar og fundir halda áfram í dag og í kvöld verður annar æfingaleikur gegn sterku liði heimamanna hér í Tyringe.

Fararstjóri karlaliðsins mun gera sitt allra besta til að flytja fréttir af því sem gerist í ferðinni þó misjafnlega langt geti orðið á milli pistla.

Kveðjur frá Svíþjóð,

Jón Þór Eyþórsson