HM 2010 í Þýskalandi

Á næst ári verðu efsta deildin á HM spiluð í Þýskalandi. Riðlarnir verða haldnir í Köln og Mannheim ef frá er talinn einn leikur sem haldinn verður í borginni Gelsenkirchen. Það er leikur heimamanna Þjóðverja gegn Bandaríkjamönnum en hann fer fram á Veltin-Arena sem er heimavöllur knattspyrnuliðsins Schalke sem spilar í þýsku úrvalsdeildinni.

Með leiknum vilja þýsku mótshaldararnir setja heimsmet í áhorfendafjölda á íshokkíleik en fyrra metið var sett í Lansing árið 2001 en þá komu 74.554 áhorfendur. Gert er ráð fyrir að völlurinn rúmi 75.976 en einsog sjá má á myndinni (tölvuteiknuð) hér að ofan verður bætt við sætum umhverfis svellið. Rúmlega 400 tonn af búnaði verða flutt á staðinn til að gera þetta mögulegt en Veltin-Arena hentar mjög vel í þetta. Bæði er að völlurinn er með þaki sem má opna og loka. Einnig er knattspyrnuvöllurinn, þ.e. grasflöturinn á hjólum, þannig að hægt er að keyra hann í heilu út á bílastæði og stendur þá einungis steypt plata eftir.

Vonandi tekst þessi tilraun hjá þjóðverjum vel og að þessu sinni ætti að vera auðveldara en áður að fá miða á leikinn.

HH