Hertz-deild kvenna hafin

Fyrsti leikur í Hertz-deild kvenna í íshokkí fór fram í gær í Laugardalnum þegar áttust við lið Reykjavíkur og Skautafélags Akureyrar. Leikurinn var hinn skemmtilegasti og mikil barátta átti sér stað af hálfu beggja liða en honum lauk með sigri Skautafélags Akureyar sem skoruðu 6 mörk á móti 2 mörkum liði Reykjavíkur.

Í fyrsta sinn í nokkur ár eru einungis 2 lið á Íslandsmóti kvenna þar sem Ásynjur og Ynjur Skautafélags Akureyrar hafa sameinast og lið Bjarnarins og Skautafélags Reykjavíkur einnig.
Hægt var að sjá á leikmannalista Reykjavíkurliðsins að töluvert hefur bæst við í hópinn og þá einna helst leikmenn úr röðum Skautafélag Akureyrar ásamt eldri og reyndari leikmönnum sem spilað hafa með Birninum í gegnum tíðina. Lið Reykjavíkur mætti með 20 leikmenn til leiks sem verður að teljast til tíðinda í samanborið við undanfarin ár en töluverð fækkun hefur verið á kvenkyns iðkenndum hjá Skautafélagi Reykjavíkur og Birninum. Lið Skautafélags Akureyar hefur einnig tekið þó nokkrum breytingum og sést það einna helst á lægri meðalaldri liðsins, þar sem sumir eldri leikmenn hafa lagt skautana á hillnuna og hinar uppteknar við barneignir.

Gestirnir hófu leikinn af krafti í 1.lotu þegar Silvía Björgvinsdóttir reið á vaðið með marki á 7.mínútu og Kolbrún Garðarsdóttir bætti við öðru marki stuttu síðar með stoðsendingu frá Ragnhildi Kjartansdóttir.  Skautafélag Akureyar var töluvert meira í sókn í lotunni en þó náðu sunnankonur að setja eitt mark af bláu línunni og var þar að verki Sigrún Árnadóttir.

Í annarri lotu kom Reykjavíkur liðið sterkt inn þegar þær skoruðu þegar 29 sekúndur voru liðnar og staðan orðin 2-2, var það samspil þeirrar Kristínar Ingadóttur og Steinunnar Sigurgeirsdóttur sem kom pekkinum í net gestanna. Mörk Reykjavíkurliðsins urðu þó ekki fleiri í leiknum en Norðanstelpur settu 3 mörk í lotunni, voru þar að verki Díana Björgvisdóttir og Berlind Leifsdóttir var með tvö mörk.

Í upphafi þriðju lotu var staðan orðin 5-2 Skautafélagi Akureyrar í vil. Þegar tæpar tvær mínútur voru liðnar skoraði svo Kolbrún Garðarsdóttir sitt annað mark og síðasta mark leiksins, fallegt mark þegar heimaliðið var einum leikmanni færri. Lokatölur leiksins voru 2-6 en að öðru leyti var þriðja lota tíðindalítil en líkt og í hinum lotunum herjuðu Norðanstúlkur mikið á mark Reykjavíkur. Markmaður Reykjavíkur varðist af miklum móð og segja má að af öllum öðrum leikmönnum ólöstuðum var það hún sem hélt Reykjavíkurliðinu inní leiknum, með 52 varin skot.  Þar var að verki fyrrum landsliðsmarkvörður, Karítas Halldórsdóttur, sem engu virðist hafa gleymt.

Spennandi verður að fylgjast með viðureignum þessara liða á komandi tímabili.

Mörk og stoðsendingar:

Reykjavík:
Steinunn Sigurgeirsdóttir 0/2
Sigrún Árnadóttir 1/0
Kristín Ingadóttir 1/0
Lena Arnarsdóttir 0/1

Skautafélag Akureyar:
Silvía Bjögvinsdóttir 1/2
Ragnildur Kjartansdóttir 0/3
Kolbrún Garðarsdóttir 2/0
Díana Björgvisdóttir 1/0
Berglind Leifsóttir 2/0